Ingibjörg fékk umhverfisviðurkenninguna

Ingibjörg Sigmundsdóttir handhafi Umhverfisviðurkenningar Hveragerðisbæjar 2022 með Aldísi Hafsteinsdóttur, bæjarstjóra, Bryndísi Eir Þorsteinsdóttur, formanni Umhverfisnefndar og Gunnari Þorgeirssyni, formanni Bændasamtaka Íslands sem ásamt Bryndísi afhenti viðurkenninguna fyrir hönd Hveragerðisbæjar. Ljósmynd/Hveragerðisbær

Ingibjörg Sigmundsdóttir, fyrrverandi eigandi Garðyrkjustöðvar Ingibjargar, fékk umhverfisviðurkenningu Hveragerðisbæjar 2022 afhenta á sumardaginn fyrsta. Afhendingin fór fram á Garðyrkjuskólanum að Reykjum að viðstöddu fjölmenni.

Í ræðu sem Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri, hélt af þessu tilefni kom fram að Ingibjörg væri alin upp með blómum og gróðri. Foreldrar hennar, þau Sigmundur K. Guðmundsson og Kristín Jónsdóttir hófu rekstur garðyrkjustöðvar í bakgarðinum hjá sér, í Hveragerði, árið 1953. Hét stöðin þá Garðyrkjustöð Sigmundar. Árið 1980 keyptu Ingibjörg og eiginmaður hennar, Hreinn Kristófersson, stöðina og ráku allt til ársins 2017 undir nafninu Garðyrkjustöð Ingibjargar, þegar þau seldu stöðina. Nýir eigendur reka þar nú Flóru garðyrkjustöð.

Þegar að Ingibjörg hætti rekstri garðyrkjustöðvarinnar stofnaði hún ásamt öðrum dugmiklum sérfræðingum á sviði garðyrkju sjálfboðaliðahópinn, Vini Fossflatar, sem tekið hafa að sér ýmis konar störf við umhirðu, skipulag og uppbyggingu Lystigarðsins Fossflöt.

Umhverfisviðurkenninguna hlýtur Ingibjörg ekki síst fyrir þetta starf og það frumkvæði sem hún hefur sýnt varðandi stórt fjölæringabeð í lystigarðinum, en hún hefur af miklum dugnaði komið upp og séð um fjölæringabeð við inngang garðsins. Hún hefur eitt ófáum tímum í þessa vinnu og er afrakstur þeirrar vinnu einstakur.

Fyrri greinUm skipulagsvinnu
Næsta greinÖryggið á oddinn