ILVA opnar á Selfossi

Ásdís Ýr Aradóttir, verslunarstjóri ILVA á Selfossi, hlakkar til að taka á móti fyrstu viðskiptavinunum á morgun. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Á morgun opnar danska verslunarkeðjan ILVA verslun að Austurvegi 69 á Selfossi. Er þetta þriðja ILVA verslunin á Íslandi en fyrir eru verslanir á Akureyri og í Garðabæ.

„Við höfum lengi fundið fyrir miklum áhuga á svæðinu og það er engin spurning að markhópur ILVA er einnig hér. Miðað við viðtökurnar þá mun verslunin hitta í mark hjá bæjarbúum og erum við í ILVA ótrúlega spennt að bjóða upp á danska gæðahönnun og fallega gjafavöru,“ segir Ásdís Ýr Aradóttir, verslunarstjóri ILVA á Selfossi, í samtali við sunnlenska.is.

Þegar blaðamaður sunnlenska.is leit við hjá ILVA í dag var starfsfólkið í óða önn að gera allt klárt fyrir opnunina á morgun. Sumir voru þaktir glimmeri frá toppi til táar eftir að hafa komið glæsilegum hnotubrjótum fyrir í versluninni, aðrir voru á hlaupum með vörur sem þurfti að setja á sinn stað en það var áberandi hvað allir voru vel stemmdir og í góðum gír – spenntir fyrir opnuninni á morgun

900 fermetrar með miklu vöruúrvali
Ásdís segir að undirbúningur hafi gengið vonum framar en húsnæðið var allt tekið í gegn fyrir stuttu og endurnýjað að innan sem utan.

„Frábært starfsfólk verslunarinnar hefur unnið hörðum höndum að því að taka upp vörur, innrétta, verðmerkja og standsetja allt sem þarf til að opna eina flottustu verslunina á svæðinu. Rýmið er 900 fermetrar og er því aðeins minna en verslanirnar í Kauptúni og á Akureyri en það kemur ekki að sök og bitnar ekki á vöruúrvalinu. Frábært úrval er af sófum, rúmum, borðstofuborðum og borðstofustólum og glæsilegri gjafavöru.“

Vönduð og falleg hönnun
ILVA hefur heldur betur slegið í gegn hjá Íslendingum síðan hún opnaði á Íslandi árið 2008. „ILVA er glæsileg dönsk húsgagnakeðja sem býður upp á vandaða og fallega hönnun, klassísk og tímalaus húsgögn í bland við nýjustu strauma og stefnur í tísku. Einnig eru sérvalin vönduð vörumerki á borð við Broste, Aida, Bloomingville, Södahl, Zone, Sirius, Umage og fleiri og fleiri í úrvali í verslunum ILVA.“

Til að byrja með hafa verið ráðnir starfsmenn í sjö stöðugildi og segir Ásdís þau sjá fram á aukningu í vor.

Hlakka til að opna dyrnar fyrir fólki
Í ört stækkandi samfélagi eykst þörfin fyrir verslanir eins og ILVA á svæðinu en einungis íbúar Árborgar eru núna rúmlega ellefu þúsund. Ásdís segir að þau hafi orðið vör við mjög mikla velvild í garð þeirra eftir að fólk frétti að stæði til að opna ILVA á Selfossi.

„Viðtökurnar hafa verið ótrúlegar. Við finnum fyrir miklum spenningi í bænum, fólk er mikið að banka upp á hjá okkur og keyra framhjá og svo fréttum við af umræðu á Facebook síðu íbúa hér svo við erum mjög glöð og þakklát og getum ekki beðið eftir að opna dyrnar. Verslunin opnar með Tax Free af öllum vörum auk sérstakra opnunartilboða sem verða eingöngu í boði á Selfossi,“ segir Ásdís að lokum.

Fyrri greinListakvöld í Listasafninu
Næsta greinVoldugir tónar í Skálholtskirkju