Illviðrisspá víða um land

Almannavarnir vekja athygli á illviðrisspá frá Veðurstofunni í nótt og á morgun, sunnudag. Búist er við éljum og töluverðum skafrenningi sunnanlands.

Búist er við suðlægri eða breytilegri átt, yfirleitt á bilinu 5-13 m/s. Snjókoma með köflum í flestum landshlutum. Hvessir um allt land í nótt. Norðan og norðvestan 15-23 á morgun, stöku él sunnan- og vestanlands, en talsverður skafrenningur einnig á þeim slóðum. Dregur heldur úr vindi vestantil seint á morgun. Frost 0 til 8 stig, en frostlaust um tíma syðst síðdegis í dag.

Í nótt verður versta veðrið á Vestfjörðum sem síðar færist suður með Vesturlandi og austur með Norðurlandi. Snemma í fyrramálið hvessir talsvert á austurhelmingi landsins umfram það sem verið hefur um nóttina og má búast við að meðalvindur verði á bilinu 23-32 m/s (10-11 vindstig) og að hviður geti farið yfir 50 m/s. Þar sem vindáttin er af norðri og norðvestri má reikna með að vindhviðurnar verði hvað sterkastar á Suðausturlandi og sunnanverðum Austfjörðum. Þessu fylgir einnig talsverð snjókoma, einkum þó Norðaustan- og Austanlands.

Vert er að hafa í huga að í svona veðurhæð með ofankomu er skyggni nánast ekkert og því útilokað að ferðast og eins má búast við að vegir verði ófærir á mjög skömmum tíma.

Fyrri greinHvítasunnusöfnuðurinn gaf HSu leikföng
Næsta greinStórglæsileg jólasýning á Selfossi