Illviðri um allt Suðurland

Fjöldi aðstoðarbeiðna hefur borist Slysavarnafélaginu Landsbjörg frá því í morgun. Ástandið er slæmt á Suðurland allt frá Þorlákshöfn að Höfn í Hornafirði.

Þök eru að losna í heilu lagi, bílar eru að fjúka út af vegum brotnar rúður, tengivagnar, grindverk að brotna, skúrar að fjúka ásamt ýmsu lauslegu.

Ferðaþjónustuaðilar eru hvattir til að upplýsa ferðamenn um hættuna sem fylgir óveðrinu.

Þá hafa strætóferðir fallið niður. Leiðir 51, 52, 57, 58, 59, 71, 72, 73, 74, 75, 81, 82, 83 og 84 aka ekki vegna veðurs.

Veðurstofan gerir ráð fyrir að þetta norðanillviðri verði viðvarandi fram á laugardagskvöld, en veðrið fari síðan batnandi.