IDS á Selfossi bætir við sig sérfræðingum

Starfsfólk IDS á Íslandi. (F.v.) Davíð Þór Kristjánsson, Guðbrandur R. Sigurðsson, Magnús Franklín, Steindór Arnar Jónsson og Edison Banushi. Ljósmynd/Aðsend

IDS á Íslandi, sem hefur höfuðstöðvar við Austurveg á Selfossi, hefur ráðið til sín tvo sérfræðinga í sölu, þá Edison Banushi og Magnús Franklín.

„Edison er sérhæfður sölustjóri með öfluga reynslu af starfi í hugbúnaðarfyrirtækjum. Magnús hefur langa reynslu af því að brúa bilið milli viðskiptaþarfa og upplýsingatækni. Við erum ákaflega sátt við þessar viðbætur í hópinn og sannfærðir um að báðir verði okkur dýrmætir starfskraftar,“ segir Guðbrandur R. Sigurðsson, framkvæmdastjóri IDS á Íslandi.

Reynsluboltar í upplýsingatækni
Áður en Edison Banushi hóf störf hjá IDS á Íslandi starfaði hann sem sölustjóri hjá hugbúnaðarfyrirtækinu SalesCloud, sem síðar sameinaðist Noona og var svo keypt af fjarskiptafyrirtækinu Símanum. Edison er ætlað að styðja vöxt fyrirtækisins með áherslu á umsjón viðskiptasambanda, nýsköpun í sölu og utanumhald viðskiptatækifæra.

Magnús Franklín hefur yfir tíu ára reynslu í að brúa bilið milli upplýsingatækni og viðskiptaþarfa. Hjá IDS á Íslandi er honum ætlað að nýta djúpa tækniþekkingu til að styðja viðskiptavini við val á sérsniðnum innviða- og gagnaöryggislausnum, með áherslu á samþætta netinnviði (HCI) og lausnir með háu aðgengisstigi.

Höfuðstöðvar á Selfossi
IDS hefur höfuðstöðvar á Selfossi, en starfsstöð í Reykjavík, og er í eigu sænska upplýsingatæknifyrirtækisins Hexatronic. Systurfyrirtæki IDS á Íslandi, einnig í eigu Hexatronic, er IDS í Bretlandi og þangað sækja Íslendingarnir bakhjarla og tæknifólk í allar stærri innleiðingar og uppsetningar á hugbúnaði og vélbúnaði.

Meðal viðskiptavina IDS á Íslandi eru Arion, Alvotech, Becthle, Borealis, DK Software, Icelandair, Íslandsbanki, Háskóli Íslands, Kvika, Landsnet, Orkuveita Reykjavíkur, Rarik, Reiknistofa bankanna og Verne Global.

Fyrri greinSumarhátíðir og bætt þjónusta
Næsta greinSnöggir að slökkva í brennandi plasti