
IDS á Íslandi, sem hefur höfuðstöðvar við Austurveg á Selfossi, hefur ráðið til sín tvo sérfræðinga í sölu, þá Edison Banushi og Magnús Franklín.
„Edison er sérhæfður sölustjóri með öfluga reynslu af starfi í hugbúnaðarfyrirtækjum. Magnús hefur langa reynslu af því að brúa bilið milli viðskiptaþarfa og upplýsingatækni. Við erum ákaflega sátt við þessar viðbætur í hópinn og sannfærðir um að báðir verði okkur dýrmætir starfskraftar,“ segir Guðbrandur R. Sigurðsson, framkvæmdastjóri IDS á Íslandi.
Reynsluboltar í upplýsingatækni
Áður en Edison Banushi hóf störf hjá IDS á Íslandi starfaði hann sem sölustjóri hjá hugbúnaðarfyrirtækinu SalesCloud, sem síðar sameinaðist Noona og var svo keypt af fjarskiptafyrirtækinu Símanum. Edison er ætlað að styðja vöxt fyrirtækisins með áherslu á umsjón viðskiptasambanda, nýsköpun í sölu og utanumhald viðskiptatækifæra.
Magnús Franklín hefur yfir tíu ára reynslu í að brúa bilið milli upplýsingatækni og viðskiptaþarfa. Hjá IDS á Íslandi er honum ætlað að nýta djúpa tækniþekkingu til að styðja viðskiptavini við val á sérsniðnum innviða- og gagnaöryggislausnum, með áherslu á samþætta netinnviði (HCI) og lausnir með háu aðgengisstigi.
Höfuðstöðvar á Selfossi
IDS hefur höfuðstöðvar á Selfossi, en starfsstöð í Reykjavík, og er í eigu sænska upplýsingatæknifyrirtækisins Hexatronic. Systurfyrirtæki IDS á Íslandi, einnig í eigu Hexatronic, er IDS í Bretlandi og þangað sækja Íslendingarnir bakhjarla og tæknifólk í allar stærri innleiðingar og uppsetningar á hugbúnaði og vélbúnaði.
Meðal viðskiptavina IDS á Íslandi eru Arion, Alvotech, Becthle, Borealis, DK Software, Icelandair, Íslandsbanki, Háskóli Íslands, Kvika, Landsnet, Orkuveita Reykjavíkur, Rarik, Reiknistofa bankanna og Verne Global.