Iða Marsibil ráðin sveitarstjóri í Grímsnes- og Grafningshreppi

Iða Marsibil Jónsdóttir.

Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps samþykkti samhljóða á fundi sínum í morgun að ráða Iðu Marsibil Jónsdóttur í starf sveitarstjóra.

Iða hefur undanfarin ár starfað sem mannauðs- og skrifstofustjóri hjá Arnarlaxi og tekið virkan þátt í mikilli uppbyggingu fyrirtækisins á Vestfjörðum. Kjörtímabilið 2018 – 2022 gengdi Iða embætti forseta bæjarstjórnar Vesturbyggðar og hefur því góða innsýn inn í stjórnsýslu sveitarstjórnarmála. Þá hefur hún einnig setið á Alþingi en hún er varaþingmaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Iða er viðskiptafræðingur að mennt og leggur stund á MBA-nám við Háskólann í Reykjavík.

Hún mun hefja störf þann 25. júlí næstkomandi og bíða hennar veigamikil og spennandi verkefni, að því er fram kemur í tilkynningu frá sveitarfélaginu.

Ása Valdís Árnadóttir, oddviti sveitarstjórnar, segir að það sé ánægjulegt að fá Iðu Marsibil í starfið.

„Hún kemur með ferska sýn á verkefnin og ég er sannfærð um að hún muni reynast sveitarfélaginu öflugur liðssyrkur í þeim verkefnum sem framundan eru. Við bjóðum Iðu velkomna til starfa og hlökkum til samstarfsins,“ segir Ása Valdís.

Iða segist sjálf vera spennt fyrir komandi verkefnum í nýju hlutverki og þakklát fyrir traustið sem henni er sýnt með ráðningunni.

„Grímsnes- og Grafningshreppur er frábærlega vel staðsett sveitarfélag með mikla möguleika, svæðið er mér hugleikið og hlakka ég til að taka þátt og leggja mitt af mörkum í þeirri vinnu sem framundan er,“ segir Iða Marsibil.

Alls sóttu 22 um starfið og fékk sveitarstjórn Hagvang til að sjá um ráðningarferlið.

Fyrri greinNítján sækja um bæjarstjórastólinn í Hveragerði
Næsta greinEinstök frægðarför til Gautaborgar