Icewear kaupir Saga Wool og saumastofuna á Hvolsvelli

Icewear hefur keypt rekstur Saga Wool, sem selur íslenskar ullarvörur erlendis, ásamt því að festa kaup á saumastofunni á Hvolsvelli.

Stofnendur og seljendur Saga Wool eru hjónin Andrés Fjeldsted og Eva María Fjeldsted sem hafa frá árinu 1986 selt íslenska ull undir vörumerkinu Saga Wool til Frakklands, Hollands og Þýskalands, sem er jafnframt stærsti markaður fyrirtækisins.

Icewear kaupir saumastofuna á Hvolsvelli af Kidka á Hvammstanga, en stofan var áður í eigu Glófa. Saumastofan framleiðir prjónavörur úr íslenskri ull sem fara á erlendan markað undir merkjum Saga Wool.

Í fréttatilkynningu frá Icewear segir að markmiðið með kaupum Icewear á bæði saumastofunni og Saga Wool er að auka framleiðslu á íslenskum ullarvörum hér á landi og efla útflutning á erlenda markaði, sér í lagi til Þýskalands. Icewear á og rekur fyrir prjónastofu á Vík og saumastofu á Ásbrú þar sem framleiddar eru vörur undir merkjum Icewear úr íslenskri ull. Eftir kaupin starfa í heildina um 180 starfsmenn hjá Icewear, þar af 30 starfsmenn við framleiðslu.

„Ég er mjög ánægður með að hafa fundið traustan aðila sem ég veit að ræður við verkefnið og getur stutt við áframhaldandi vöxt félagsins á erlendum mörkuðum. Á Hvolsvelli hefur skapast mikil reynsla og þekking og virkilega ánægjulegt að tryggt sé að framleiðslan verði þar áfram,“ segir Andrés Fjeldsted.

Ágúst Þ. Eiríksson, stofnandi og eigandi Icewear segir Andrés og Evu Maríu hafa náð ótrúlegum árangri á þessu sérhæfða sviði. „Það hefur verið áhugavert að fylgjast með þeim í gegnum árin. Okkur hjá Icewear hlakkar mikið til að halda áfram með verkefnið.

Fyrri greinMikill þörf fyrir viðburði handa 50 ára og eldri
Næsta greinFjórir Sunnlendingar í ungmennaráði