Icelandic Lava Show hlaut nýsköpunarviðurkenningu ferðaþjónustunnar

Frá afhendingu nýsköpunarverðlauna ferðaþjónustunnar 2019. Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, Hólmfríður Vala Svavarsdóttir, hótelstjóri Hótels Ísafjarðar, Jón Steindór Árnason, stjórnarformaður Sjóbaðanna á Húsavík, Ragnhildur Ágústsdóttir, stofnandi og eigandi Icelandic Lava Show og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. Ljósmynd: SAF/HAG

Icelandic Lava Show í Vík í Mýrdal var eitt þriggja fyrirtækja sem tilnefnt var til nýsköpunarverðlauna ferðaþjónustunnar, en verðlaunin voru afhent í gær.

Að þessu sinni ákvað dómnefndin að tilnefna þrjú fyrirtæki sem hljóta nýsköpunarviðurkenningu ferðaþjónustunnar árið 2019, en auk Icelandic Lava Show voru það Sjóböðin á Húsavík og Hótel Ísafjörður.

Tilnefningarnar til verðlaunanna endurspegla mikla grósku og nýsköpun í ferðaþjónustu um allt land. Hugmyndaauðgi, stórhugur og fagmennska einkennir mörg þau fyrirtæki sem tilnefnd voru og var dómnefnd því ákveðinn vandi á höndum. Nefndarmenn voru þó einróma um að handhafi verðlaunanna í ár séu Sjóböðin á Húsavík.

Icelandic Lava Show hefur vakið mikla athygli frá því sýningin opnaði haustið 2018 en þetta er eina sýningin í heiminum þar sem sjá má bráðið hraun renna í öruggu umhverfi. Á Facebook-síðu sinni segja þau Ragnhildur Ágústsdóttir og Júlíus Ingi Jónsson, eigendur Icelandic Lava Show að þau séu gríðarlega stolt af þessari miklu viðurkenningu.

Verðlaunin afhent í sextánda sinn
Samtök ferðaþjónustunnar afhenda nýsköpunarverðlaunin fyrir athyglisverðar nýjungar og er markmiðið að hvetja fyrirtæki innan samtakanna til nýsköpunar. Þetta er í sextánda skipti sem nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar voru afhent, en meðal fyrri verðlaunahafa eru Friðheimar árið 2017, Gestastofan Þorvaldseyri árið 2014 og Þórbergssetur í Suðursveit árið 2008.

Fyrri greinSelfoss í basli gegn toppliðinu
Næsta grein„Draumabyrjun á aðventunni“