Íbúðarhús á Selfossi mikið skemmt eftir eldsvoða

Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Einbýlishús við Heiðarveg á Selfossi skemmdist mikið í eldsvoða á tíunda tímanum í morgun.

Einn var inni í húsinu þegar eldurinn kom upp en hann slapp út af sjálfsdáðum. Mikið viðbragð var vegna útkallsins; bæði frá slökkviliði, sjúkraflutningum og lögreglu.

Að sögn Péturs Péturssonar, slökkviliðsstjóra Brunavarna Árnessýslu, var mikill eldur í einu herbergi og reykur barst um allt húsið, sem er á tveimur hæðum.

„Við vorum fljótir á vettvang og slökkvistarfið gekk hratt og vel en þarna hefði getað farið illa. Það eru miklar skemmdir á húsinu,“ sagði Pétur í samtali við sunnlenska.is.

Lögreglan á Suðurlandi rannsakar upptök eldsins.

Fyrri grein159 HSK met sett á síðasta ári
Næsta greinJóna Katrín skipuð skólameistari