„Íbúarnir vonandi hoppandi ánægðir“

Fótboltastelpur frá Selfossi ærslast á belg á Stakkagerðistúni í Vestmannaeyjum. sunnlenska.is/Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir

Eigna- og veitunefnd Árborgar samþykkti á fundi sínum í kvöld að setja upp ærslabelg á íþróttasvæðinu við Engjaveg á Selfossi. Starfsmönnum mannvirkja- og umhverfissviðs Árborgar var falið að staðsetja belginn í samráði við Ungmennafélag Selfoss.

Að sögn Tómasar Ellerts Tómassonar, formanns eigna- og veitunefndar, er á döfinni að koma fyrir tveimur belgjum til viðbótar á Selfossi, einum á Eyrarbakka og einum á Stokkseyri og verður gert ráð fyrir þeim í fjárfestingaáætlun næsta árs.

„Þannig að það koma fjórir belgir til viðbótar á næsta ári og vonandi verða íbúarnir hoppandi ánægðir að fá loksins langþráða ærslabelgina,“ sagði Tómas Ellert í samtali við sunnlenska.is.

Að sögn Tómasar Ellerts er kostnaðurinn við hvern ærslabelg um ein og hálf milljón króna.

Fyrri greinÁtta HSK met á öldungamóti – Óli með fimm gull
Næsta greinPólitískt jakkafata-drama er minn tebolli