Íbúarnir farga sjálfir lífrænu sorpi í Hörputurn

„Okkur hér hjá sveitarfélaginu fannst óeðlilegt og bókstaflega óheilbrigt að lífræna sorpinu væri ekið út úr sveitarfélaginu með tilheyrandi kostnaði.

Sá kostnaður nam um 2,2 milljónum króna á ári og sveitarstjórnin ásamt mér og umhverfisnefnd klóraði sér því í hausnum yfir því hvort ekki væri hægt að fara einhverja aðra leið.

Árið 2013 hrintum við í framkvæmd lausnum sem miða að því að afsetja lífræna sorpið heima í sveitarfélaginu,“ segir Kristófer Tómasson, sveitarstjóri þegar hann var spurður út í lífræna sorpið sem fellur til í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Þar er svokallað þriggja tunnu kerfi sem hefur verið við lýði frá 2009 en Íslenska gámafélagið hefur veitt íbúum í hreppnum sorpþjónustu frá þeim tíma.

Maíspokanum hent í plaströr
Kristófer segir að lífrænulausnum megi skipta í þrjá flokka. „Í fyrsta lagi höfum við boðið ábúendum í dreifbýlinu upp á svokallaða Hörputurna. Þá er sett niður jörðina plaströr, um 45 sentimetrar í þvermál. Boruð er hola með staurabor eins langt niður og hann kemst eða allt að 2,6 metra. Rörið er sett um 1 metra niður í jörðina og stendur um það bil annað eins upp úr jörðinni af praktískum ástæðum. Svo er sett lok yfir. Í þessa holu setja íbúarnir á hverjum stað sinn lífræna úrgang. Hann er settur í maíspoka og þaðan í holuna en hola sem þessi dugar fyrir meðalstórt heimili í um eitt og hálft til tvö ár. Þegar holan er full, þá er boruð ný hola og rörið fært. Sett er ensím í holuna til að hraða niðurbroti úrgangsins,“ segir Kristófer.

Þess má geta að þessi útfærsla hefur verið kölluð Hörputurn, í höfuðið á Hörpu Dís Harðardóttur, fyrrum sveitarstjórnarmanni í hreppnum sem fékk þessa hugmynd.

Í öðru lagi er lífrænum úrgangi safnað saman tvisvar í mánuði í þéttbýliskjörnunum í Brautarholti og við Árnes og hann uttur af starfsmanni áhaldahúss í Skaftholt þar sem hann er notaður í moltugerð. „Þriðja útfærslan er þannig að íbúar á sveitabæjum sjá um afsetningu lífræna úrgangsins sjálfir, svo sem með því að setja hann í haughúsin eða gefa hann hænum, allt hvað á við hverju sinni,“ segir Kristófer.

Fyrri greinHamar tapaði heima
Næsta greinDýrmæt stig í súginn í toppbaráttunni