Íbúar Rangárþings eystra frekar hlynntir sameiningu

Hvolsvöllur. Ljósmynd/hvolsvollur.is

Tveir þriðju hlutar íbúa Rangárþings eystra eru hlynntir sameiningu við annað eða önnur sveitarfélög.

Þetta er niðurstaða spurningakönnunar sem Félagsvísindastofnun gerði meðal íbúa Rangárþings eystra í vor. Könnunin var gerð að tillögu D-listans.

Alls voru 66% svarenda fylgjandi því að Rangárþing eystra myndi sameinast öðru eða öðrum sveitarfélögum. Af öllum þátttakendum voru 63% svarenda fylgjandi sameiningu Rangárþings eystra og Rangárþings ytra og 64% fylgjandi sameiningu allra sveitarfélaganna í Rangárvallasýslu. Aðeins 40% kjósenda voru hlynntir sameiningu Rangárþings eystra og Mýrdalshrepps.

Séu eingöngu þeir sem eru fylgjandi einhvers skonar sameiningu skoðaðir þá eru flestir hlynntir sameiningu Rangárþings eystra, Rangárþings ytra og Ásahrepp eða 87% og næstum því jafnhátt hlutfall er fylgjandi sameiningu milli Rangárþings eystra og Rangárþings ytra eða 86%. Mun færri, sem hlynntir voru einhverri sameiningu, voru hlynntir sameingu Rangárþings eystra og Mýrdalshrepps eða 51%.

Könnunin var símakönnun sem náði til allra íbúa sveitarfélagsins, 18 ára og eldri. Í niðurstöðum könnunarinnar segir að erfiðlega hafi gengið að hafa upp á erlendum ríkisborgurum, sem og yngra fólki, eða um þriðjungi skráðra íbúa. Alls voru 1.557 íbúar á lista en 683 svöruðu könnuninni og var heildarsvarhlutfall því 43%.

Fyrri greinBestu-deildar slagur í bikarnum
Næsta greinHafsjór í Húsinu á Eyrarbakka