Íbúar í Sveitarfélaginu Ölfusi eru orðnir 3.000 talsins í fyrsta skipti. Af því tilefni heimsóttu Elliði Vignisson, bæjarstjóri og Grétar Ingi Erlendsson, formaður bæjarráðs, þrjúþúsundasta íbúann og færðu fjölskyldunni glaðning.
Þar var um að ræða dóttur þeirra Aníku Eiðsdóttur og Atla Rafns Guðbjartssonar, sem fæddist þann 19. september síðastliðinn.
„Þetta var gleðirík stund sem minnti á hina raunverulegu merkingu allrar þeirrar uppbyggingar sem átt hefur sér stað undanfarin ár, að skapa gott, öruggt og kraftmikið samfélag þar sem unga fólkið okkar vill setjast að og bera áfram keflið,“ segir í frétt frá sveitarfélaginu.
Ölfusingar eru í dag 3.020 talsins, samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands. Þar búa í dag 1.664 karlar og 1.356 konur. Meðalaldur íbúa er 38 ár og elsti íbúinn er 97,3 ára.

