Íbúar og ökumenn í beinni í fimm löggæslumyndavélum

Sveitarfélagið Árborg hyggst festa kaup á fimm löggæsluvélum til uppsetningar í sveitarfélaginu. Fyrsta slíka vélin verður tengd lögreglustöðinni á Selfossi á næstunni en hún verður sett upp við Ingólfstorg á mótum Suðurlandsvegar og Árbæjarvegar.

Þannig verður umferð á því svæði mynduð allan sólarhringinn. Tvær aðrar vélar verða settar upp á Selfossi, annars vegar á gatnamótum Eyrarbakkavegar og Selfossflugvallar og hins vegar við hringtorgið á mótum Austurvegar og Gaulverjabæjarvegar. Þá verða einnig settar upp vélar á Stokkseyri og Eyrarbakka.

Á þessu ári er ætlunin að verja sjö milljónum króna í verkefnið, kostnaður á hverja vél er mismunandi eftir því hversu auðvelt er að komast í nauðsynlegar tengingar, rafmagn og ljósleiðara.

„Vélarnar verða tengdar beint við lögreglustöðina og verður efni eingöngu aðgengilegt lögreglumönnum vegna löggæslu og öryggismála,“ segir Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar um málið. Hún segir efni ekki verða vistað af sveitarfélaginu og það fari ekki í gegnum tölvukerfi þess. „

Persónuvernd hefur fjallað um málið og gerir ekki athugasemdir við fyrirkomulagið,“ segir Ásta.

Fyrri greinMinningar á vegg
Næsta greinAllt í járnum í Þorlákshöfn