Íbúar í Lyngheiði bíða spenntir eftir götusóparanum

Íbúar í Lyngheiðinni fengu skilaboð um að færa bíla sína og sópa gangstéttar fyrir morgundaginn. Athugið, myndin er samsett.

Gríðarleg spenna ríkir hjá íbúum götunnar Lyngheiðar á Selfossi þar sem til stendur að götusópari mæti í götuna á morgun.

Íbúar í Lyngheiðinni fengu smáskilaboð frá Sveitarfélaginu Árborg í dag, þar sem þetta er áréttað, fólk beðið um að færa bíla sína og jafnvel sópa af gangstéttum út á götu.

Það væri kannski ekki í frásögur færandi fyrir utan það að Lyngheiðin er „fokheld“ vegna framkvæmda í götunni sem staðið hafa síðan síðasta sumar. Það er því mjög líklegt að götusóparabíllinn muni eiga erfitt með að athafna sig í götunni – ef hann á annað borð leggur í hana.

Annars má bæta því við að endurbótum á Lyngheiðinni átti að vera lokið þann 1. október í fyrra en verkið hefur tafist mikið þar sem klöpp er undir götunni sem hefur torveldað vinnu verktakans mikið.

Það er ólíklegt að götusóparinn reyni við Lyngheiðina á morgun, í það minnsta verður erfitt fyrir hann að athafna sig þar. Ljósmynd/Björgvin Guðmundsson
Fyrri greinDagný Lísa skoraði 47 stig í tapleik
Næsta greinSpenna og hasar í fimmta lagi Moskvít