Íbúar á Selfossi eru hvattir til að fara sparlega með kalda vatnið á meðan á slökkvistarfi stendur í kurlfjallinu á athafnasvæði Íslenska gámafélagsins við Hrísmýri.
„Það fer gríðarlegt vatnsmagn í þessar aðgerðir, þannig að við hjá Selfossveitum viljum hvetja íbúana til að spara vatnið á meðan þær standa yfir. Það er aðeins að koma í bakið á okkur þetta góða vor sem við fengum en þurrkur kemur alltaf fram í minni vatnsstöðu í Ingólfsfjalli sirka tveimur mánuðum seinna,“ segir Ásgeir Magnússon, rekstrarfulltrúi hjá Selfossveitum, í samtali við sunnlenska.is.
Eins og sunnlenska.is greindi frá fyrr í kvöld er slökkviliðið farið að sækja vatn í Ölfusá til slökkvistarfsins og eru þrír tankbílar í stöðugum vatnsflutningum.

