„Íbúar búnir að fá sig alveg fullsadda af ástandinu“

Bæjaryfirvöld í Ölfusi hafa fundað fulltrúum Fiskmarks og Lýsis sem reka fiskþurrkanir í Þorlákshöfn með það fyrir augum að starfsemin fari út úr þéttbýlinu.

„Ýldufýlan hefur legið yfir þorpinu undanfarin ár og eru íbúar búnir að fá sig fullsadda af þessu ástandi og gera sér grein fyrir því að það stendur í vegi fyrir framförum í Þorlákshöfn,“ segir Guðmundur Oddgeirsson, bæjarfulltrúi í Ölfusi, í samtali við Sunnlenska.

„Það er horft á svæði fyrir þessa starfsemi 3-4 km vestur af Þorlákshöfn og verða sveitarfélagið og eða veitufyrirtækin að leggja til veitulagnir þarna vestur eftir. Þær gætu svo nýst öðrum fyrirtækjum, opnað ný tækifæri á þessu matvælatengda iðnaðarsvæði eins og alidýraeldi, gróðurhús og fleira,“ segir Guðmundur.

„Bæjarstjórnin er einhuga um að við þetta ástand verði ekki búið við lengur,“ segir Guðmundur ennfremur.

Fiskþurrkunin Fiskmark hefur starfsleyfi til eins árs í senn en starfsleyfi Lýsis hf., vegna fiskþurrkunarinnar rennur út vorið 2016.

Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu

Fyrri greinSextán tíma sölumennska fyrir frímiða
Næsta greinSveitabúðin UNA opnuð á Hvolsvelli