Íbúar Árborgar orðnir 10.000

Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Íbúar Sveitarfélagsins Árborgar eru í fyrsta skipti orðnir fleiri en 10.000 talsins en múrinn var rofinn í dag og íbúarnir núna orðnir 10.001.

„Þetta eru búnir að vera mjög spennandi síðustu dagar, eins og að fylgjast með konu á steypinum,“ sagði Tómas Ellert Tómasson, formaður eigna- og veitunefndar Árborgar, í samtali við sunnlenska.is.

„En svona að öllu gamni slepptu þá er þetta virkilega ánægjulegur áfangi. Það má þakka íbúum sveitarfélagsins fyrir það frábæra íþrótta-, menningar- og félagsstarf að þessum áfanga sé náð. Það streymir til okkar fólk, allsstaðar af landinu í okkar góða samfélag til að taka þátt í þessu starfi. Það er virkilega bjart yfir sveitarfélaginu um þessar mundir,“ segir Tómas Ellert.

„Þetta er fjölbreyttur hópur sem flytur hingað, í bland eldra fólk og yngra en það virðist á köflum vera árstíðabundið hvaða aldurshópar hafa vinninginn á hverjum tíma ársins,“ bætir Tómas Ellert við.

Sundurliðuð íbúatala Árborgar í dag er þannig að á Selfossi búa 8.532, á Stokkseyri 559, á Eyrarbakka 555 og í dreifbýlinu sem tilheyrði Sandvíkurhreppi 320. Óstaðsettir í hús eru 35 talsins.

Árborg er áttunda fjölmennasta sveitarfélagið á Íslandi.

Fyrri greinGóður sigur hjá Hamarskonum
Næsta greinÖll sveitarfélög á Íslandi verði barnvæn