Íbúar Sveitarfélagsins Árborgar eru orðnir 9.000 talsins en níuþúsundasti íbúinn er Bára Leifsdóttir sem flutti ásamt manni sínum, Stefáni Hafsteini Jónssyni á Selfoss nú um áramótin.
Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar og Kjartan Björnsson, forseti bæjarstjórnar, heimsóttu Báru og Stefán á nýja heimilið sitt í Gráhellu á Selfossi í kvöld, buðu þau velkomin í sveitarfélagið á nýjan leik og færðu þeim blómvönd.
Bára og Stefán flytja á Selfoss frá Reykjavík þar sem þau hafa búið undanfarin fjórtán ár, en áður bjuggu þau á Selfossi og þar áður í Skeiðahreppi. Þau fengu lögheimili í Árborg í dag þar sem Stefán er íbúi númer 8.999 og Bára númer 9.000.
„Við bjóðum ykkur velkomin og það er gaman af því að þið skuluð vera partur af þessari miklu bylgju flutninga austur fyrir fjall. Það er fólk á öllum aldri að flytja hingað og það er virkilega ánægjulegt,“ sagði Kjartan.
Að sögn Ástu fjölgaði íbúum í Árborg um vel á sjötta hundrað árið 2017 og fylgdust bæjaryfirvöld vel með því á síðustu dögum ársins hvenær íbúi númer 9.000 myndi birtast á íbúaskránni.