Þéttbýlistaðurinn Selfoss og nágrenni fór í fyrsta sinn yfir 10.000 einstaklinga í talningu Hagstofu Íslands um síðustu áramót.
Þann 1. janúar 2025 bjuggu 10.478 á Selfossi og nágrenni en inni í því mengi Hagstofunnar eru Selfoss og Árbæjarhverfi í Ölfusi, þar sem bjuggu 58 manns. Hagstofan finnur mörk þéttbýlisstaða með því að telja saman heimilisföng sem eru 200 metra eða skemur hvert frá öðru og getur þéttbýlisstaður þannig náð yfir byggðakjarna í fleiri en einu sveitarfélagi.
Neðst í þessari frétt má sjá kort af mengi Hagstofunnar sem telur Selfossi og nágrenni.
Tjarnabyggð orðin byggðakjarni
Hagstofan endurskoðar mörk þéttbýlisstaða á fimm ára fresti. Ein breyting varð á þeirri talningu um síðustu áramót en Tjarnabyggð í Sveitarfélaginu Árborg fór yfir 200 íbúa markið og fór því úr því að teljast strjálbýli yfir í að teljast þéttbýli. Alls bjuggu 229 íbúar í Tjarnabyggð um síðustu áramót.
Tæplega þrettán þúsund manns í Árborg
Íbúatalning Þjóðskrár Íslands er síðan annar handleggur en þar er miðað við sveitarfélagamörk og tölurnar eru uppfærðar daglega á vef stofnunarinnar. Í Sveitarfélaginu Árborg bjuggu í gær 12.829 íbúar. Þeir eru á Selfossi, Eyrarbakka, Stokkseyri og í gamla Sandvíkurhreppi.


