Íbúakosning um miðbæjarskipulagið verður 18. ágúst

Bæjarráð Árborgar samþykkti á fundi sínum í morgun að íbúakosning um miðbæjarskipulag á Selfossi fari fram laugardaginn 18. ágúst næstkomandi.

Stefnt er að því að kosningin verði með hefðbundnum hætti í kjördeildum og kjörstaðir verði opnir frá kl. 9:00 – 18:00.

Á fundi bæjarstjórnar þann 14. maí voru samþykktar þær spurningar sem lagðar verða fyrir í íbúakosningunni. Þær eru eftirfarandi:

Ert þú hlynnt(ur) eða andvíg(ur) tillögu að breytingu sem bæjarstjórn Árborgar samþykkti hinn 21. febrúar 2018 á aðalskipulagi Selfoss vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar í miðbæ Selfoss?
Hlynnt(ur)
Andvíg(ur)

Ert þú hlynnt(ur) eða andvíg(ur) tillögu að breytingu sem bæjarstjórn Árborgar samþykkti hinn 21. febrúar 2018 á deiliskipulagi fyrir miðbæ Selfoss?
Hlynnt(ur)
Andvíg(ur)

Verði kosningaþátttaka meiri en 29% verður niðurstaða kosninganna bindandi fyrir bæjarstjórn en ef færri en 29% taka þátt verður niðurstaðan ráðgefandi fyrir endanlega ákvörðun bæjarstjórnar um skipulagið.

Ákveðið hafði verið að kosningin færi fram með rafrænum hætti en nú liggur fyrir að Þjóðskrá Íslands nær ekki að undirbúa og vinna gögn fyrir sveitarfélagið nægjanlega fljótt svo það sé unnt. Því verður kosningin með hefðbundnu fyrirkomulagi í kjördeildum.

Fyrri grein„Þetta er léttir“
Næsta greinSkógræktin varar við skerðingu trjágróðurs við Skógafoss