Íbúakosning í Hornafirði brýtur blað í sögu kosninga á Íslandi

Í fyrsta sinn í sögu lýðræðis á Íslandi mega 16-18 ára kjósa í almennum kosningum, sem er íbúakosning á Hornafirði.

Við breytingu á sveitarstjórnarlögum frá 2022 var sett inn ákvæði um að sveitarstjórn sé heimilt að samþykkja að 16 ára og eldri mega kjósa í íbúakosningum.

Bæjarstjórn Hornafjarðar samþykkti að kosningaaldur í íbúakosningu sem hófst síðastliðinn mánudag og stendur til 10. júlí miðast við 16 ára aldur, þ.e. að þeir sem verða 16 ára fyrir 11. júlí hafa kosningarétt.

Í íbúakosningunni er kosið um hvort aðal- og deiliskipulag um þéttingu byggðar Innbæ á Höfn haldi gildi sínu.

Bæjarráð bókaði á fundi sínum að öll sem eru 16 ára fyrir 11. júlí eru hvött til þess að taka þátt í kosningunni og nýta sér kosningarétt sinn.

Ungir kjósendur á Hornafirði eru ekki óvanir að kjósa því sveitarfélagið, í samráði við ungmennaráð Hornafjarðar, hefur boðið upp á skuggakosningar samhliða almennum kosningum frá árinu 2016 sem kemur sér vel núna þegar alvaran tekur við. Það voru fyrstu skuggakosningar á landinu.

Fyrri greinHalli í Akurey heiðraður
Næsta grein„Alltaf með eitthvað nýtt“