Íbúakönnun um breytt deiliskipulag í miðbæ Selfoss

Teikning af yfirbragði byggðar og tengslum hennar við Sigtúnsgarð, gerð af Batteríinu Arkitektum.

Bæjarstjórn Árborgar samþykkti á fundi sínum í síðustu viku að efna til íbúasamráðs um tillögu að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Selfoss og samkomulags milli sveitarfélagsins og Sigtúns Þróunarfélags.

Breytingin felur í sér að minnka Sigtúnsgarð um 2.800 fermetra en á móti verður heildarstærð almenningsrýma í miðbænum aukin um 1.400 fermetra, auk þess sem byggð við Sigtúnsgarð verður lágreistari en áður var fyrirhugað.

Könnunin hófst síðastliðinn fimmtudag og lýkur fimmtudaginn 25. maí kl. 18. Um er að ræða ráðgefandi íbúakönnun á vefsvæðinu Betri Árborg, sem hægt er að nálgast í gegnum heimasíðu sveitarfélagsins.

Íbúar með lögheimili í Árborg, sextán ára og eldri, geta tekið þátt í könnuninni. Þar er fólk spurt hvort það sé hlynnt eða andvígt breytingartillögunni.

Kynningarfundur á Sviðinu
Haldinn verður kynningarfundur á Sviðinu í dag, mánudaginn 22. maí kl. 18:00. Þar munu fulltrúar sveitarfélagsins og Sigtúns Þróunarfélags fara yfir deiliskipulagstillöguna, samkomulagið og skipulagsferlið ásamt því að svara fyrirspurnum. Fundinum verður streymt í gegnum heimasíðu Sveitarfélagsins Árborgar.

Viðauki við samkomulag um uppbyggingu í miðbæ Selfoss

Breyting á deiliskipulagi, fyrir og eftir

Greinargerð með deiliskipulagi

Fyrri greinÆgismenn fóru stigalausir úr Laugardalnum
Næsta greinGul viðvörun: Varasamt ferðaveður