Íbúafundur og kosning um gatnamót á Flúðum

Samhliða Alþingiskosningunum þann 27. apríl næstkomandi munu Hrunamenn kjósa um hvort stefna skuli að T-gatnamótum eða hringtorgi á gatnamótin við Grund á Flúðum.

Á fundi hreppsnefndar í gær kynnti oddviti uppdrætti sem Landform ehf hefur gert þar sem fram koma tveir möguleikar á lausnum vegna gatnamótanna við Grund. Annars vegar er um að ræða útfærslu á T-gatnamótum og hins vegar hringtorg.

Hreppsnefnd samþykkti að halda ráðgefandi íbúakosningu um hvort stefna skuli að T-gatnamótum eða hringtorgi við gatnamótin við Grund. Kosning skal fara fram samhliða kosningum til Alþingis laugardaginn 27. apríl nk. Sveitarstjóra og formanni kjörstjórnar var falið að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að kosningin geti farið fram samhliða alþingiskosningunum.

Jafnframt samþykkti hreppsnefnd að boða til íbúafundar í félagsheimilinu miðvikudaginn 13. mars kl. 20 þar sem útfærslurnar að gatnamótunum og skipulagslýsing fyrir miðsvæðið á Flúðum verða kynntar af skipulagsráðgjöfum sveitarfélagsins.

Fyrri greinStuðningurinn skiptir mjög miklu máli
Næsta greinMikil stemmning í Höllinni