Íbúafjölgun í öllum sveitarfélögunum

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Íbúum á Suðurlandi fjölgaði um 1.155, eða 4,5%, árið 2022 en þann 1. janúar síðastliðinn var samanlagður mannfjöldi í Árnes-, Rangárvalla og V-Skaftafellsýslum 26.736 manns.

Í fyrsta skipti frá því að sunnlenska.is fór að fylgjast með íbúafjöldanum á Suðurlandi fjölgar íbúum í öllum þrettán sveitarfélögunum og hvergi verður fækkun.

Samkvæmt tölum Þjóðskrár var mesta tölulega fjölgunin í Árborg en mesta hlutfallslega fjölgunin var í Ásahreppi.

Mikil fjölgun í Uppsveitunum og Hveragerði
Íbúum Árborgar fjölgaði um 400, eða 3,7%, sem er sama prósentufjölgun og árið 2021. Árborgarar voru 11.234 þann 1. janúar síðastliðinn. Í Ásahreppi fjölgaði um 35 íbúa eða 13,5% og voru íbúar sveitarfélagsins 295 þann 1. janúar.

Í Bláskógabyggð varð einnig mikil fjölgun, þar fjölgaði íbúum um 10%, eða 116 íbúa og eru þeir því 1.281 talsins. Hrunamenn snúa vörn í sókn eftir fækkun árið 2021 en þar fjölgaði um 52 íbúa eða 6,3% árið 2022. Hrunamenn voru 874 um áramótin.

Hvergerðingum hefur fjölgað mest á landsvísu síðustu tvö árin ef horft er til stóru sveitarfélaganna. Hvergerðingum fjölgaði um 211 árið 2022 eða 7,1%, sem er svipuð fjölgun og árið áður. Hvergerðingar rufu 3.000 íbúa múrinn í fyrsta skipti í febrúar 2022 en þann 1. janúar 2023 voru þeir orðnir 3.197.

Hröð fjölgun austan Sólheimasands
Í bæði Rangárþingi eystra og Rangárþingi ytra fjölgaði íbúum um 58, sem er 3,2% fjölgun í ytra og 2,9% í eystra. Íbúar Rangárvallasýslu voru 4.195 þann 1. janúar síðastliðinn.

Hlutfallsleg fjölgun er áfram mikil í Mýrdalshreppi þar sem fjölgaði um 64 íbúa eða 7,9% og í Skaftárhreppi fjölgaði um 38 íbúa eða 5,9%. Íbúar V-Skaftafellssýslu voru 1.557 þann 1. janúar síðastliðinn.

53,5% Árnesinga búa í Árborg
Það dregur lítillega úr fjölgun í Ölfusinu miðað við árið 2021 en á síðasta ári fjölgaði Ölfusingum um 93 íbúa eða 3,8%. Í Grímsnes- og Grafningshreppi fjölgaði um 2,5% og 2,2% í Flóahreppi. Minnsta breytingin er í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, þar sem fjölgaði um 2 íbúa eða 0,3%.

Íbúar Árnessýslu voru 20.984 þann 1. janúar síðastliðinn og búa 53,5% þeirra í Árborg.

Íbúum á Íslandi fjölgaði um um það bil 2% á síðasta ári og er fjölgunin á Suðurlandi því langt umfram landsmeðaltal.

 

Fyrri greinÖruggt gegn botnliðinu
Næsta greinAdrián Sánchez í Selfoss