Íbúðirnar settar á leigumarkað

Guðjón Sverrir Rafnsson, byggingaverktaki, hyggst hefja byggingu fjölbýlishúss við Akurhóla 4 á Selfossi innan tveggja mánaða ef allt gengur eftir.

Guðjón Sverrir var einn þeirra þriggja sem dregnir voru út fyrir skömmu um þrjár eftirsóttar fjölbýlishúsalóðir. Hann hefur til þessa eingöngu starfað í Reykjavík og þetta er fyrsta verk hans á Selfossi. Hann hyggst bjóða verkið út til undirverktaka þegar teiknivinnu er lokið.

„Við erum að hamast við að ganga frá teikningum og ég vonast til þess að geta hafist handa innan tveggja mánaða,” sagði Guðjón Rafn í samtali við Sunnlenska. Hann segist allt eins hugsa sér að leigja íbúðirnar út enda sé skortur á leiguíbúðum á Selfossi.

Aðspurður sagðist Guðjón ekki treysta sér til að segja til um hvenær íbúðirnar verða tilbúnar. Þó sé stefnt að því að þær verði tilbúnar á næsta ári.

Eins og kom fram í Sunnlenska í síðustu viku þá ætlar Baldur Pálsson, eigandi Eðalbygginga, að skoða þann möguleika að byggja á einni hæð, en hann fékk úthlutað lóðinni við hliðina. Guðjón Rafn sagðist ætla að byggja tveggja hæða fjölbýlishús með 10 til 12 íbúðum.

„Það er ánægjulegt að fá tækifæri til að byggja á Selfossi enda virðist núna vera skortur á húsnæði” sagði Guðjón að lokum.

Fyrri greinTekjur af Búðarhálsvirkjun að koma inn
Næsta greinSprautaði tómatsósu um alla verslunina