Íbúðalánasjóður selur tuttugu eignir á Suðurlandi

Íbúðalánasjóður ákvað á dögunum að setja 400 íbúðir úr eignasafni sjóðsins í sérstakt söluferli. Tuttugu þessara íbúða eru á Suðurlandi.

Eignirnar 400 eru seldar í sjö eignasöfnum en flestar þeirra eigna sem fara í söluferli að þessu sinni eru nú þegar í útleigu og margar þeirra voru byggðar sérstaklega sem leiguíbúðir. Við söluna er lagt til grundvallar að þær verði einungis seldar til aðila sem ætla að reka þær áfram til útleigu.

Á Suðurlandi er um að ræða sex íbúðir í Hveramörk 14 í Hveragerði, eina íbúð í Sambyggð 4 í Þorlákshöfn, fjórar í Sambyggð 6-8 og tvær Sambyggð 12, fimm íbúðir við Fossveg 2 og 4 á Selfossi og tvær íbúðir við Fossveg 10.

Staðsetning eignanna í hverju eignasafni fyrir sig er þannig að rekstur þeirra sé sem hagkvæmastur þó að þær séu dreifðar um landið. Þannig eru íbúðirnar á Suðurlandi í eignasafni með fimmtíu öðrum íbúðum í Hafnarfirði og á Akranesi.

Samanlagt fasteignamat sunnlensku eignanna er um 248 milljónir króna en þær eru í Eignasafni 1 og er heildarfasteignamat safnsins rúmlega 1.353 milljónir króna.

Stefnt er að því að tilkynnt verði um hagstæðustu tilboðin um miðjan janúar næstkomandi og að sölusamningar verði undirritaðir í kjölfarið.

Fyrri greinHús, tónlist, Vesturfarar og söguganga
Næsta greinSkemmtileg stemmning á fyrsta móti Hengils