Íbúðarhús nötra vegna þungaflutninga

Mýrdalshreppur hefur ítrekað kvartað yfir hraðri umferð þungaflutningabíla í gegnum þorpið í Vík og íbúar við Austurveg eru orðnir langþreyttir á titringi í húsum vegna þungaflutninga.

Kolbrún Ósk Guðjónsdóttir og Sigurður Gýmir Bjartmarsson, íbúar á Austurvegi 6 í Vík, komu á síðasta fund sveitarstjórnar og kvörtuðu undan miklum titringi á heimili sínu vegna hraðrar umferðar þungaflutningabíla í gegnum þorpið.

Að sögn Sigurðar Gýmis hefur komið fyrir að leirtau hafi brotnað í glerskáp af þessum titringi og eins er farið að bera á sprungum í húsinu.

Þau Kolbrún Ósk og Sigurður Gýmir segja nauðsynlegt bæði að lagfæra veginn og takmarka umferðarhraða í gegnum þorpið. Óþægindin af umferðinni séu sérstaklega slæm eftir kl. 21 á kvöldin.

Fram kom á fundinum að sveitarstjóri hafi ítrekað kvartað yfir þessu við Vegagerðina án þess að útbætur hafi verið gerðar. Sveitarstjórn samþykkti að boða til fundar með Svani Bjarnasyni, svæðisstjóra Vegagerðarinnar á Suðurlandi og Bjarna Jóni Finnssyni, yfirverkstjóra Vegagerðarinnar í Vík, til að funda um þetta vandamál við fyrsta tækifæri.


Farið er að bera á sprungum í húsinu eins og sjá má á þessari mynd.