ÍAV bauð lægst í breikkun Suðurlandsvegar

Nýji Ölfusvegurinn yfir Varmá verður hægra megin við nýjan Suðurlandsveg á þessari mynd. Mynd/Mannvit

Íslenskir aðalverktakar buðu lægst í tvöföldun Suðurlandsvegar í Ölfusi en tilboð í verkið voru opnuð í gær.

Tilboð ÍAV hljóðaði upp á rúmlega 1.361 þúsund krónur en öll tilboðin voru hærri en áætlaður verktakakostnaður Vegagerðarinnar, sem var 1.250 þúsund krónur.

Ístak hf bauð 1.561 þúsund krónur í verkið og Suðurverk og Loftorka gerðu sameiginlegt tilboð upp á 1.572 þúsund krónur. Munck Íslandi átti hæsta tilboðið, 1.631 þúsund krónur.

Þetta er fyrsti hluti breikkunar Suðurlandsvegar milli Hveragerðis og Selfoss en heildarlengd kaflans er um 2,5 km. Auk veglagningarinnar þarf að gera ný gatnamót við Vallaveg og Ölfusborgaveg og hliðarvegir sem tengjast nýjum vegamótum. Inni í verkinu er einnig breikkun brúar yfir Varmá og undirgöng austan Varmár fyrir gangandi og ríðandi.

Einnig eru innifaldar breytingar á lagnakerfum veitufyrirtækja sem og nýlagnir og landmótun auk annarra þátta sem nauðsynlegir eru til að ljúka verkinu.

Þessum verkhluta á að vera lokið í síðasta lagi þann 15. september á næsta ári.

Fyrri greinSelfoss tapaði í botnslagnum
Næsta greinBjarni ráðinn framkvæmdastjóri Votlendissjóðs