ÍAV bauð lægst í annan áfanga Suðurlandsvegar

Íslenskir aðalverktakar áttu lægsta tilboðið í annan áfanga breikkunar Suðurlandsvegar á milli Hveragerðis og Selfoss en tilboðin voru opnuð í vikunni.

Tilboð ÍAV hljóðaði upp á rúma 5,0 milljarða króna og var 97% af áætluðum verktakakostnaði, sem var rúmlega 5,2 milljarðar króna.

Tvö önnur tilboð bárust í verkið. Suðurverk og Loftorka buðu rúmlega 5,7 milljarða króna og Ístak átti hæsta tilboðið, tæplega 5,9 milljarða króna.

Um er að ræða nýbyggingu vegarins að hluta og breikkun og endurgerð að hluta, alls um 7,1 km. Gerð verða ný vegamót við Kirkjuferjuveg og Hvammsveg eystri ásamt nýju hringtorgi við Biskupstungnabraut. Lagður verður nýr tæplega 5 km Ölfusvegur með hjólareinum ásamt breytingu á Þórustaðavegi og Biskupstungnabraut.

Byggðar verða þrjár nýjar brýr á Gljúfurholtsá og Bakkárholtsá, undirgöng fyrir bíla við Þórustaði og við Kotströnd þar sem Ölfusvegur fer undir nýjan Hringveg.  Þá verða byggð tvenn sérstök undirgöng fyrir reiðleiðir og gönguleiðir. Einnig eru breytingar á lögnum veitufyrirtækja innifalin í verkinu.

Áætlað upphaf framkvæmda er nú í vor og á verkinu að vera lokið í síðasta lagi 29. september 2023.

Vegagerð við Hveragerði í undirbúningi
Til að ljúka breikkun Suðurlandsvegar og aðskilnaði akstursstefna frá Biskupstungnabraut að Kömbum er gert ráð fyrir að vegurinn verður færður til suðurs við Hveragerði í nýja veglínu samkvæmt aðalskipulagi Hveragerðisbæjar. Sú framkvæmd er í undirbúningi og gert er ráð fyrir henni á samgönguáætlun árið 2023.
Fyrri greinVésteinn vann silfur á Opna danska
Næsta greinEkkert tilfelli komið fram á Suðurlandi