Í tveggja ára fangelsi fyrir nauðgun

Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt 19 ára gamlan pilt í 2 ára fangelsi fyrir að nauðga 14 ára stúlku.

Pilturinn var einnig dæmdur til að greiða stúlkunni 1,2 milljónir í miskabætur auk málskostnaðar.

Brotið var framið í júlí á síðasta ári þegar pilturinn var 17 ára og stúlkan 14 ára. Hann var ákærður fyrir að hafa farið með stúlkuna inn húsasund á bakvið grunnskóla og notfært sér þar yfirburðastöðu sína gagnvart stúlkunni vegna aldurs-, og aflsmunar og það að hún var ein með honum fjarri öðrum, látið hana leggjast á hnén og þvingað hana til að hafa við sig samræði og munnmök. Stúlkan fékk nokkra áverka.

Pilturinn neitaði sök og sagði kynmökin hafa verið með vilja stúlkunnar. Héraðsdómur taldi hins vegar að framburður stúlkunnar væri trúverðugur og studdur gögnum málsins. Einnig vísaði dómurinn til áverka, sem stúlkan hlaut, fatnaðar hennar, andlegrar vanlíðunar, þess að hún var á blæðingum, aðstæðna á brotavettvangi, og aldursmunar á henni og manninum.

Dómurinn segir að pilturinn hafi gerst sekur um alvarlegt kynferðisbrot gegn 14 ára stúlku sem hlaut líkamlega áverka, sem hún beri ör eftir, og hafi þurft að þola andlegar þjáningar. Til refsilækkunar beri að líta til þess að pilturinn var sjálfur barn að aldri en eigi sér annars engar málsbætur.

mbl.is greindi frá þessu

Fyrri greinRóleg vika í Rangárþingi
Næsta greinSlapp ómeiddur úr bílveltu