Í sjálfheldu í Ingólfsfjalli

Björgunarfélag Árborgar og Hjálparsveit skáta Hveragerði eru á Ingólfsfjalli til að aðstoða par sem er í sjálfheldu fyrir ofan Silfurbergið í suðvesturhorni fjallsins.

Fólkið var á göngu í fjallinu og fór á svæði þar sem mjög bratt er og kemst nú hvorki upp né niður. Parið hringdi í Neyðarlínuna um klukkan 19:30 og er nú búið að koma sér fyrir og bíður aðstoðar.

Um fimmtán vanir fjallamenn úr björgunarsveitum taka þátt í að bjarga fólkinu og voru þeir komnir að þeim um klukkan 20:30. Í slíkum aðstæðum þurfa björgunarmenn oft að fara upp fyrir fólk og koma fyrir línum svo hægt sé að koma því niður. Því getur slík björgun tekið dálítinn tíma.

Veður er gott á svæðinu og ekki talin mikil hætta á ferðum.

Fyrri greinTryggir rekstrargrundvöll klúbbsins til næstu ára
Næsta greinBítlaæði grípur um sig