„I nearly died and I'm not joking!“

Ítalskur ferðalangur á Fimmvörðuhálsi sem kallaði eftir aðstoð fyrr í dag er kominn í bíl björgunarsveitar sem flytur hann til byggða.

Sleðamenn björgunarsveita sóttu hann í skála Útivistar á Fimmvörðuhálsi og fluttu að Baldvinsskála þar sem bílar biðu. Fleira ferðafólk er með í för þar sem Í ljós kom að í Baldvinsskála voru staddir tveir ferðamenn sem komust hvorki lönd né strönd vegna veðurs.

Erlendir ferðalangar sem lenda í vandræðum hér á landi nota margvíslegar leiðir til að kalla eftir aðstoð. Eins og sunnlenska.is greindi frá bárust fyrstu fregnir af vandræðum þess ítalska þegar ferðamenn sem hann hafði slegist í för með um tíma hér á landi höfðu samband við lögreglu eftir að hafa fengið SMS boð frá honum. „I nearly died and I’m not joking,“ sagði meðal annars í skilaboðunum frá manninum, sem fylgja á myndinni með fréttinni.

Þar sagðist hann sitja fastur í skála sem hann rakst á fyrir tilviljun eftir miklar hrakningar. Á þeirri stundu var ekki vitað hvar hann var staddur og var eftirgrennslan hafin. Boð í gegnum neyðartalstöð komu síðar og var þá hægt að staðsetja hann nákvæmlega.

Í tilkynningu frá Landsbjörgu segir að atvik sem þessi minni á hversu mikilvægt það er að skilja alltaf eftir ferðaáætlun hjá aðstandanda, vini eða öðrum sem brugðist getur við ef eitthvað hefur farið úrskeiðis. Hana má líka gera á vefnum www.safetravel.is þar sem ferðalangar eru leiddir í gegn um gerð hennar. Þar má að auki velja vöktun en þá er fylgst með að ferðalangur skili sér heim heilir á húfi.

Fyrri greinFestu Yaris uppi á miðjum Kili
Næsta greinÖlvisholt Brugghús kom, sá og sigraði