Í gæsluvarðhald til 15. nóvember

Útigangsmaðurinn sem handtekinn var á Selfossi í gærkvöldi grunaður um íkveikju við KFC var nú síðdegis úrskurðaður í gæsluvarðhald til 15. nóvember næstkomandi.

Sýslumaðurinn á Selfossi lagði fram kröfu um gæsluvarðhald í hádeginu í dag og nú síðdegis var maðurinn úrskurðaður í gæsluvarðhald næstu 28 daga.

Rúmur hálfur mánuður er síðan maðurinn var dæmdur í gæsluvarðhald grunaður um ítrekaðar íkveikjur á Selfossi. Maðurinn kærði úrskurðinn og felldi Hæstiréttur hann úr gildi. Hann var því frjáls ferða sinna eftir það – þangað til hann var handtekinn í gærkvöldi.

Áður en fyrri gæsluvarðhaldsúrskurðurinn var kveðinn upp hafði lögreglan á Selfossi haft afskipti af manninum í 124 skipti á sex mánaða tímabili.