Í fangelsi fyrir að svíkja leigubílstjóra

Þrítugur Hafnfirðingur, sem dvelur nú í fangelsinu á Litla-Hrauni, var í síðustu viku dæmdur í þrjátíu daga fangelsi í Héraðsdómi Suðurlands fyrir að svíkja leigubílstjóra um fargjald.

Maðurinn tók leigubíl frá Reykjavík á Selfoss í júní á þessu ári en gat ekki greitt fargjaldið þegar á áfangastað var komið.

Maðurinn viðurkenndi sök í málinu en hann hefur þrettán sinnum áður sætt refsingu, þar af átta sinnum fyrir auðgunarbrot. Með broti þessu rauf hann reynslulausn en eftirstöðvar hennar voru 170 dagar.

Maðurinn var dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir fjársvikin og í ljósi sakaferils mannsins þótti ekki tilefni til að skilorðsbinda refsinguna. Að auki þarf hann að greiða skipuðum verjanda sínum 80.000 króna þóknun.

Fyrri greinMilljón í sekt fyrir landabrugg
Næsta greinElfar Guðni sjötugur