Í fangelsi fyrir að stela jólaöli

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í gær 58 ára gamla konu á Eyrarbakka í þriggja mánaða fangelsi fyrir að stela dós af jólaöli og skinnarmbandi í Gallerí Gónhól á Eyrarbakka í desember sl.

Konan hefur ítrekað verið dæmd fyrir þjófnað og fleiri brot og rauf með brotinu skilyrði eldri dóms.

Konan sagðist hafa greitt fyrir gosið áður en hún fór með dósina út úr húsinu en armbandið hafa slæðst í poka með pilsi sem hún keypti. Þetta tók dómarinn ekki trúanlegt og fann konuna seka.

Að auki var konunni gert að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns að upphæð 250 þúsund krónur.