Í fangelsi fyrir þjófnað

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í dag 34 ára gamlan Reykvíking í 45 daga fangelsi fyrir að brjótast inn í bílskúr í Hveragerði og stela þar gítarmögnurum, bassahátölurum, riffli og haglabyssu.

Innbrotið átti sér stað í október árið 2009. Maðurinn neitaði fyrst sök og sagðist hafa verið að sækja munina fyrir eiganda bílskúrsins en snéri síðan við blaðinu og játaði á sig þjófnaðinn.

Fram kemur í dómnum, að maðurinn á nokkuð langan brotaferil að baki og hefur áður verið dæmdur fyrir fíkniefnabrot, þjófnaði og umferðarlagabrot, síðast í 4 mánaða fangelsi fyrir fíkniefnabrot í nóvember 2009.

Maðurinn afplánaði þann dóm á síðasta ári og lauk þá þrettán vikna meðferð á svokölluðum meðferðargangi á Litla Hrauni og námskeiði sem byggðist á kenningum um hugræna atferlismeðferð. Þá hóf hann áfengis- og vímuefnameðferð á dagdeild Landspítalans eftir að afplánun dómsins og sagðist fyrir dómi ekki hafa neytt áfengis eða lyfja á þeim tíma.