Íþróttafélög fái endurgreiddan virðisaukaskatt

Fjórir sunnlenskir Alþingismenn eru meðflutningsmenn með frumvarpi Willums Þórs Þórssonar, þingmanni Framsóknarflokksnis, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til íþróttafélaga.

Willum Þór mælti fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um virðisaukaskatt á Alþingi í gær. Meðflutningsmenn hans koma allir úr Suðurkjördæmi en það eru Páll Jóhann Pálsson, Haraldur Einarsson og Silja Dögg Gunnarsdóttir úr Framsóknarflokknum og Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Í greinargerð frumvarpsins segir, að frumvarpið miði að því að breyta virðisaukaskattsumhverfi íþróttahreyfingarinnar. Lagt er til að íþrótta- og ungmennefélögum verði endurgreiddur allur virðisaukaskattur sem greiddur hefur verið af vinnu manna við nýbyggingu, endurbyggingu og viðhaldi við íþróttamannvirki, en einnig af þjónustu vegna hönnunar, eftirlits eða viðhalds þeirra. Frumvarpið gerir ráð fyrir að þjónusta og vörusala sem stunduð er til að afla fjár fyrir hefðbundna starfsemi íþróttafélaga verði undanþegnar virðisaukaskatti. Tímabilið í frumvarpinu er eitt ár, frá 1. janúar 2015 til 1. janúar 2016.

Á síðasta þingi var lögð fram þingsályktunartillaga um endurskoðun á virðisaukaskattsumhverfi íþróttahreyfingarinnar og stóðu sömu stjórnarþingmenn að baki henni.

Í greinargerðinni segir að sjálfboðaliðastarf hafi lengi verið grunnurinn að öflugu íþróttastarfi á Íslandi. „Verði frumvarpið að lögum mun það stórefla allt sjálfboðaliðastarf innan íþróttahreyfingarinnar hér á landi og auðvelda íþróttafélögum alla uppbyggingu íþróttamannvirkja. Frumvarpið er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að leggja áherslu á mikilvægi íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsmála.“

Nánari upplýsingar um frumvarpið má nálgast hér.

Fyrri greinVaraaflið fært í jörð og línur hverfa
Næsta greinAfhentu SOS Barnaþorpum liðlega hálfa milljón króna