Íþróttahúsið á Flúðum í fulla stærð

Sveitarstjórn Hrunamannahrepps hefur samþykkt að stækka íþróttahúsið á Flúðum í fulla stærð og byggja áhaldageymslu við það á næstu tveimur árum.

Um er að ræða 730 fermetra stækkun á íþróttahúsinu ásamt 180 fermetra áhaldageymslu. Með þessari stækkun, sem er rúmlega tvöföldun á núverandi húsnæði, verður til handboltavöllur í fullri stærð ásamt áhorfendabekkjum.

Íþróttahúsið var vígt árið 1993 en upphafleg hönnun á húsinu miðaði við íþróttahús í fullri stærð með tilheyrandi búningsaðstöðu. Hlutinn sem nú er í notkun hýsir búningsaðstöðuna og 3/7 hluta af íþróttasalnum.

Á fundi sveitarstjórnar í gær var kynnt kostnaðaráætlun frá tæknisviði uppsveita vegna þessara framkvæmda en áætlaður heildarkostnaður við verkið er um 150 milljónir króna.

Verkið á að vinna á árunum 2014 og 2015 og er áætlað að á árinu 2014 falli 75 milljónir króna til vegna verksins, sem fjármagnaðar verða með lántöku.

Þá fól sveitarstjórn sveitarstjóra ásamt tæknisviði uppsveita að vinna áfram að þróun verksins og leita samninga eða tilboða í ákveðna verkþætti.

Fyrri greinSelfoss flaug inn í 8-liða úrslitin
Næsta greinJólasveinar líta við í LÁ