Hyggur á gerð heimildarmyndar um Skáldagötuna

Morten Ottesen í Hveragerði hyggur á gerð heimildarmyndar um Skálda­götuna í Hveragerði sem mun fjalla um þjóðþekkt skáld sem bjuggu við Frumskóga á árunum 1940 til 1960.

Morten, sem ólst upp við götuna og rekur þar gistiheimilið Frumskóga, segist hafa fengið hugmyndina og rætt hana við tengdason sinn, Janus Braga Jakobsson, leikstjóra, þegar sá síðarnefndi hugði á heimferð úr námi við hinn virta Danske Filmskole í Danmörku.

„Honum leist vel á hugmyndina og við höfum mótað hana í sameiningu og málin þróast þannig að ef allt gengur eftir verður hún framleidd í sumar og vonandi frumsýnd í haust,“ segir Morten.

Hafa þeir fengið framleiðslu­fyrirtækið Mystery Iceland í lið með sér við gerð myndarinnar.

Bjarni Harðarson, bóksali á Selfossi, mun skrifa handrit myndarinnar og áformar Morten að hluti myndarinnar verði teiknimynd, og skáldin verði teiknuð og samtöl þeirra verði leikin innan þess hluta myndarinnar.

Myndin verður um 50 mínútur að lengd, og framleiðslu­tíminn áætlaður um fjórir mánuðir.

„En þótt mikið sé vitað um þennan tíma leitum við samt að myndum úr götunni frá árunum 1940 til 1960, sem hægt verður að nota við gerð myndarinnar til að sýna hvernig hún leit út á þeim árum sem skáldin gengu hér um götur,“ segir Morten að lokum.