Hyggst reisa 28 nýjar þjónustuíbúðir á Selfossi

„Ætlunin er að byggja lágstemmt húsnæði á þremur hæðum þar sem verða 28 þjónustuíbúðir fyrir aldraða í fyrsta áfanga og vonandi 50 hjúkrunarrými í öðrum áfanga.

Auk tæplega 700 fermetra viðbyggingar á milli núverandi þjónustuíbúða í Grænumörkog nýju byggingarinnar með glæsilegum sal undir félagsaðstöðu fyrir eldri borgara,“ segir Leó Árnasson, athafamaður, en hann, ásamt fjárfestum munu sjá um byggingaframkvæmdina.

Leó keypti nýlega fimm lóðir af Landsbankanum við Austurveg 51 til 59 undir bygginguna, sem verður um 2.800 fermetrar að stærð. Leó, sem vill ekki nefna neinar tölur að svo stöddu um bygginguna, segir alveg óvíst hvort hjúkrunarheimili verði þar líka, það sé á könnu Sveitarfélagsins Árborgar og ríkisins en að sjálfsögðu voni hann það besta í þeim efnum.

„Ég hef kynnt hugmyndina fyrir öllum flokkum í Árborg, forsvarsmönnum félags eldri borgara og öðrum, sem allir hafa tekið hugmyndinni vel enda mjög brýnt að koma svona byggingu á koppinn á Selfossi, sem fyrst. Ef allt gengur upp þá verða útboðsgögn klár í haust og framkvæmdir geta vonandi hafist fyrir áramót. Byggingatíminn yrði um eitt og hálft ár,“ bætti Leó við.

Fyrri greinSóttu fastan bíl á Kjalveg
Næsta greinÞrumur og eldingar á Suðurlandi