Hyggst ekki fara að tilmælum úrskurðarnefndar

Sóknarnefnd Selfosskirkju mun ekki áminna formann nefndarinnar eða kirkjuvörðinn í Selfosskirkju, líkt og úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar hafði farið fram á í bréfi til sóknarnefndar­innar.

Málið er tilkomið vegna sam­skipta sóknarnefndarformanns og kirkju­varðar­ins við sóknarbarn sem áttu sér stað í mars í fyrra, en kirkjuráði þótti ástæða til að þeim tveimur fyrrnefndu yrði veitt áminning fyrir háttsemi sína gagnvart sóknarbarninu.

Þetta fellst sóknarnefnd ekki á og á fundi sínum þann 15. febrúar sl. var málið afgreitt með þeim orðum að sóknarnefnd sjái ekki ástæðu til sér­stakra aðgerða að sinni hálfu í máli þessu.

Í svari nefndarinnar við bréfinu frá úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar segir að sóknarnefndin hafi rætt málið og kynnt sér starfsreglur um úrskurðar­nefnd og áfrýjunarnefnd þjóðkirkjunnar, sem og siðareglur vígðra þjóna og annars starfsfólks kirkjunnar og fleiri atriði. Þá hafi kirkjuvörður og formaður sóknarnefndar „…með bréfi dags. 29. mars 2010 beðið málshefjanda afsökun­ar á því sem á milli ber vegna símtala 5. mars 2010.“ Því sé ekki ástæða til að aðhafast frekar.