Hyggjast stytta vetrarlokun talsvert

Hótel Höfðabrekka. sunnlenska.is/Jónas Erlendsson

Stjórnendur Hótels Höfðabrekku í Mýrdal hafa ákveðið að lengja opnunartíma hótelsins nú yfir vetrarmánuðina. Aðeins verður lokað í desember og janúar en á síðasta ári var lokað frá því í nóvember og fram í miðjan febrúar.

Að sögn Björgvins Jóhannessonar hótelstjóra er þegar búið að bóka nokkuð í nóvember og hann sagðist bjartsýn á að það næðist þokkaleg nýting á þessum aukatíma. Talsvert er búið að fækka starfsfólki en lengingin gerir kleyft að bæta við vinnu hjá starfsmönnum.

Hótel Höfðabrekka er eitt stærsta sveitahótel landsins en þar eru 72 herbergi, flest tveggja manna. Að sögn Björgvins hefur nýting verið góð það sem af er ári og nokkru betri en á síðasta ári.

„Það sem er ánægjulegast er að ferðamannatíminn er að lengjast og við náum nýtingu yfir stærri hluta ársins,” sagði Björgvin.

Nú þegar er farið að ganga frá bókunum fyrir næsta ár en Björgvin sagði fyrirhugaða hækkun virðisaukaskatts áhyggjuefni. Hún felur í sér 15-18% hækkun á gistingu. „Við erum mjög hrædd við áhrif þessar hækkunar og trúum því ekki að hún komi til framkvæmda með þeim hætti sem hefur verið boðað.Við sjáum ekki annað en að það geti komið verulega niður á aðsókn ferðamanna hingað til lands,” sagði Björgvin.

Fyrri greinGríðarlega góður sigur í Víkinni
Næsta greinTveir Selfyssingar skrifa undir samning