Hyggjast opna hótel í Þykkvabænum

Hjónin Gyða Árný Helgadóttir og Hallgrímur Óskarsson í Þykkvabæ hyggjast reisa hótel að Norður-Nýjabæ, þar sem þau búa. „Við erum að breyta hér fjósinu og byggja við og ætlum að koma upp átján herbergja gistihúsnæði," sagði Gyða í samtali við Sunnlenska.

Þar verður jafnframt matsalur, eldhús, setustofa og þjónusturými, í alls um sex til sjöhundruð fermetra byggingu.

„Við höfum gengið með þetta í maganum í all nokkur ár og nú vildum við bara koma þessu í framkvæmd,“ segir Gyða, en þau hjónin reka fyrirtækið GK-glugga að Norður-Nýjabæ.

„Þetta eru kannski ekki fyrstu skrefin í ferðaþjónustu, ætli ég hafi ekki fengið smjörþefinn þegar ég starfaði um tíma á Stracta,“ sagði Gyða ennfremur.

Gyða segir vaxandi umferð erlendra ferðamanna á svæðinu og nokkrir hafi tekið upp á því að bjóða upp á AirBnB í sumarhúsum og íbúðarhúsum þar í grennd. „Hér er þetta alltaf að aukast og má segja að hér sé óplægður akur í þessum efnum,“ segir Gyða. Hún ætlar sér að byggja upp flotta gistiaðstöðu þar sem fólki líði vel í heimilislegu andrúmslofti.

Útsýni er til allra átta í Þykkvabænum, vestur til Bláfjalla, til Heklu og Eyjafjalla í austri, auk þess sem Vestmannaeyjar blasa við. „Hér er líka mikil saga sem mér finnst ástæða til að segja frá og tengja við ferðaþjónustuna,“ segir Gyða.

„Við stefnum að því að opna í mars, hér er allt á botni,” bætti hún við. „Þetta ætti að takast, nema eitthvað mikið verði að veðri.“