Hyggjast lista upp nauðsynlegar framkvæmdir

Ágætis mæting var á íbúafundi sem bæjaryfirvöld í Árborg héldu í lok janúar. Margar ábendingar bárust frá íbúum varðandi nauðsynlegar framvæmdir í umhverfinu.

Elfa Dögg Þórðardóttir, formaður framkvæmda- og veitustjórnar, segir að margar hugmyndir um þörf verkefni hafi komið frá íbúum á fundunum og ætlar hún að beita sér fyrir því að útbúinn verði listi með yfirliti yfir það sem þarf að gera. Listinn verði aðgengilegur á heimasíðu sveitarfélagsins þar sem fólk geti fylgst með framgangi verkefnanna.

„Þarna er mest um að ræða framkvæmdir sem ætti að vera einfalt og ódýrt að koma í verk,“ segir Elfa. Hún segir umræðu um skipulagsmál í mjólkurbúshverfinu hafa verið ofarlega í huga fundarmanna á Selfossi og ýmsar hugmyndir á lofti um uppbyggingu á þjónustu við aldraða á því svæði.