Hyggst flytja Sænska húsið í Smáratúnið

Sænska húsið við Smáratún 1, séð frá Hótel Selfossi. Tölvumynd/Teark Arkitekter

Bæjarstjórn Árborgar samþykkti á síðasta fundi sínum að veita Bellahotel ehf vilyrði fyrir lóðinni Smáratún 1 á Selfossi en forsvarsmenn Bellahotel eru að skoða þann möguleika að flytja Sænska húsið svokallaða á lóðina.

Sænska húsið stendur í dag við Austurveg 33 á Selfossi en á þeirri lóð stendur til að fullklára bygginguna sem nú hýsir Bella Apartments og fleiri fyrirtæki.

Sigurður Dagur Sigurðsson, eigandi Bellahotel segir í bréfi til bæjaryfirvalda að hann telji að Sænska húsið myndi falla vel inn í götumyndina við Smáratúnið, og einnig við nýja-gamla miðbæinn sem nú er að rísa.

„Ég veit fyrir víst að allir innviðir Sænska hússins eru ótrúlega góðir, það er til dæmis ekki fúi í grind hússins. Það er ekki víst að það réttlæti kostnað að flytja húsið í heilu á Smáratún 1, en ég myndi samt nýta eins og frekast væri kostur innviði Sænska hússins og það væri allan daginn Sænska húsið sem myndi rísa við Smáratún,“ segir Dagur.

„Það væri sorglegra en tárum taki ef niðurstaðan yrði sú að Sænska húsið yrði rifið og hyrfi af yfirborði jarðar, og einnig írónískt, svo ekki sé dýpra í árina tekið, nú þegar verið er að byggja ný gömul hús í nýja miðbænum, alls staðar að af landinu og sama tíma yrði eitt þeim fáu gömlu húsum á Selfossi með sögu rifið,“ bætir hann við.

Sænska húsið var flutt inn frá Noregi á fimmta áratug síðustu aldar. Húsið er bárujárnsklætt timburhús á tveimur hæðum og á sér töluverða sögu á Selfossi en þar hafa meðal annars margir Selfyssingar hafið búskap og ýmsir mektarmenn alist upp.

Kirkjuvegurinn á Selfossi í átt að Selfosskirkju. Tölvumynd/Teark Arkitekter
Fyrri greinFlestir á hraðferð á Suðurlandsvegi
Næsta greinÞórsarar sterkir í lokin