Hyggjast efla háskólanám á Sólheimum

Unnið er að því að efla það háskólanám sem nú þegar á sér stað í Sesseljuhúsi á Sólheimum í Grímsnesi.

Undanfarin ár hafa komið hópar háskólastúdenta frá Bandaríkjunum og hefur starfið verið að aukast smám saman.

Að sögn Katrínar Magnúsdóttur, sem hefur umsjón með náminu, er þetta fjórða árið í röð sem boðið er upp á slíkt nám sem er á sviði sjálfbærni (e. sustainability). Yfirleitt koma 15 manna hópar í einu og fylgja þeim tveir háskólaprófessorar auk þess sem Katrín hefur komið að kennslunni. Nemarnir dvelja hér yfirleitt þrjá mánuði í einu og búa á Sólheimum. Fyrstu hóparnir komu árið 2007 en frá 2009 hafa komið tveir hópar á vetri.

,,Við vonumst til að geta kynnt þetta betur og fjölgað hópunum þannig að þeir séu að koma hér allt árið um kring. Um leið og það eflir starfið hér og alla starfsemi þá mun það einnig gera Sesseljuhús að enn meira fræðasetri,“ segir Katrín. Námið hefur hlotið smávægilega styrki frá umhverfisráðuneytinu og nýlega samþykkti Grímsnes- og Grafningshreppur að veita 250 þúsund króna styrk.

Samið hefur verið við háskóla í Bandaríkjunum um að nemendur þaðan fái aðgang að Sesseljuhúsi en að sögn Guðmundar Ármanns Péturssonar, forstöðumanns á Sólheimum, er mjög spennandi ef tekst að semja einnig við skóla í Evrópu. Að sögn Guðmundar hefur þetta fært Sólheimum nokkrar tekjur og vonir standa til þess að þær geti orðið enn meiri í framtíðinni með fleiri nemendum.