Hyggjast byggja stærsta minkabú landsins

Stefán Jónsson og Ármann Einarsson í Þorlákshöfn hyggjast stofna félag um byggingu minkabús í nágrenni Þorlákshafnar, nánar til tekið á skilgreindu iðnaðarsvæði um tvo kílómetra utan þéttbýlisins.

Að sögn Stefáns hafa þeir þegar fengið úthlutað lóðinni og unnið er að fjármögnun verkefnisins. Þar er ætlunin að reisa alls um 23 þúsund fermetra húsnæði undir 10 þúsund læður og verður það að líkindum stærsta bú landsins.

„Þetta verður ekki reist í einu vetfangi, þar sem einfaldlega eru ekki til nægilega mörg dýr í landinu,“ segir Stefán. Hann á von á að það taki um fjögur til fimm ár að ná stofninum upp í áætlaðan fjölda.

Stefán segist hafa rætt við aðra minkabændur á Suðurlandi um þessi áform sín og segir hann þá hafa tekið mjög vel í þau. „Þetta fær jákvæðni frá öllum,“ segir hann.

Stefán hyggst gerast aðili að Fóðurstöð Suðurlands og fá fóður í búið þar.

Fyrri greinLandsmótsmyndir: Fimmtudagur
Næsta greinSetningarathöfn landsmótsins færð í Vallaskóla