Hyggjast auka neyðarlýsingu

Fleiri neyðarljós verða sett upp í sundlaug Selfoss en rafmagnsleysi sem varð í hluta bæjarins í nóvember kom gestum laugarinnar á óvart án þess þó að valda neinum vandræðum.

Meðal sundlaugargesta var hópur foreldra með börn sín í ungbarnasundi. Að sögn Þórdísar Sigurðardóttur forstöðumanns sund­lauga Árborgar er starfsfólk lauganna ágætlega þjálfað til að bregðast við þegar slíkar aðstæður koma upp, en svartamyrkur varð bæði úti og inni, að frátöldum nýju útiklefunum.

„Þegar svona lagað kemur upp kannar starfsfólk okkar sundlaugina og beinir fólki yfir í heita pottinn,“ segir Þórdís. Óalgengt sé að rafmagn fari í langan tíma í einu og því ástæðulaust að senda fólk heim.

Hún segir að vissulega sé hægt að hafa betri lýsingu á svæðinu og ætlunin sé að koma upp fleiri ljóskösturum. „Þetta rafmagnsleysi minnir mann á hverju maður getur átt von á,“ segir Þórdís.

Fyrri greinEnginn Sunnlendingur á stjórnlagaþing
Næsta greinStjórnarskráin mest lesin