Hvolsskóla lokað vegna loftmengunar

Öll börn voru send heim úr Hvolsskóla á Hvolsvelli kl. 10 í morgun vegna svifryksmengunar í þorpinu. Austanrok er á Hvolsvelli og slæmt skyggni.

„Hér er alveg hræðilega mikil svifryksmengun. Við verðum að hafa alla glugga lokaða því rykið smýgur inn og skyggnið er ekki nema 10-20 metrar. Við hleypum engum út nema með grímur og hlífðargleraugu,“ sagði Sigurlín Sveinbjarnardóttir, skólastjóri, í samtali við sunnlenska.is.

„Heilsuverndarmörkin eru 400 µg/m³ en þá mega börnin ekki fara út og ekki vera í áreynslu. Okkur leist ekki á þetta þegar mælirinn hér á Hvolsvelli fór í 900 µg/m³ í morgun. Nú standa yfir vordagar hér í skólanum með mikilli útivist, ruslatínslu og gönguferðum, en við megum bara ekki senda börnin út í þetta,“ sagði Sigurlín.

„Yngsta stigið er reyndar allt í Húsdýragarðinum í Reykjavík í dag en allir sem voru hér í skólanum voru sendir heim. Við hringdum í alla foreldra fyrst og þeir sem voru í vanda með pössun fá að hafa börnin hérna hjá okkur til klukkan eitt í dag.“

Fyrri greinSlasaðist við stökk í Hvítá
Næsta greinGrunaðir um 50 innbrot í sumarbústaði